Thursday, December 13, 2012

Hver er ég?


Hvað vissi ég um leiðsögn þegar námskeiðið hófst?

Eins og sjá má hér var það ekki margt, þrátt fyrir að ég hefði í nokkur ár haft umsjón með kennaranemum.

Reyndar voru nokkur atriði sem ollu mér heilabrotum:

Sú regla virtist vera til að fimm ára kennslureynslu væri krafist af þeim sem tækju að sér nema, en þeirri reglu virtist ekki alls staðar vera framfylgt.

Hlutverk mitt sem leiðsagnarkennara virtist afar illa skilgreint. Nemar þeir sem ég tók að mér könnuðust ekki við að þeir ættu að ígrunda reynslu sína, en það hafði verið alfa og omega í mínu vettvangsnámi fyrir fáeinum árum. Svo virtist sem ég ætti helst að lýsa frammistöðu nemanna fyrir þeim og gefa álit mitt á því hvað hefði gengið vel eða illa.

Svo virtist sem misræmi væri milli námskeiða Menntavísindasviðs varðandi það hvað ætti að vera fólgið í vettvangsnámi. Þetta var því eins og fótboltaleikur þar sem sífellt er verið að færa markstangirnar.

Samvinna kennaranema virtist mjög handahófskennd, sem aftur rímaði illa við mína reynslu af vettvangsnámi. Stundum var ætlast til að nemar ynnu saman, en þá varð að hverfa frá heimaskólakerfinu til að það væri hægt. Markmið með samstarfinu virtust mér í lausu lofti og sama mátti segja um nemana.

Heimaskólakerfið, sem við fyrstu sýn virtist frábær hugmynd, hafði greinilega ekki verið hugsað til enda. Þannig virtist það stundum skapa vesen að til væru skólar þar sem fram færi samkennsla árganga og samþætting námsgreina í samfelldum vinnulotum, því verkefni nemanna voru hönnuð fyrir hefðbundna bekkjarkennslu.

Það má kannski segja að þótt ég hafi haft sterka tilfinningu fyrir því að ég vissi fátt um hvað þyrfti til að búa til góða leiðsögn og markvisst vettvangsnám, þá virtist ég ekki vera einn um þá fáfræði.

Hver er reynsla mín?

Ég datt inn kennslustarfið fyrir slysni og starfaði sem leiðbeinandi í rúm tvö ár og vissi ekkert hvað ég var að gera. Að vísu á ég ekki langt að sækja kennsluhæfileika en þeir koma samt ekki með móðurmjólkinni, það er bara bull. Mér veitti því alls ekki af því að skella mér í kennsluréttindanám og var svo heppinn að stunda það við Félagsvísindasvið Háskóla Íslands. Þar var námið markvisst og skilvirkt og mikil áhersla lögð á ígrundun og metanám. Að námi loknu hóf ég störf við framsækinn grunnskóla í mótun og átti mikinn þátt í alls konar skólaþróunarverkefnum þar. Skólinn var fámennur þegar ég hóf þar störf og fljótlega var að mér sótt að taka að mér kennaranema. Það var nýtt fyrir mér en sama mátti svo sem segja um flest sem ég tók mér fyrir hendur í þessum skóla. Ég reyndi að byggja á reynslu minni af eigin vettvangsnámi en komst að því að það hentaði illa. Bæði voru kröfur frá Menntavísindasviði aðrar en þær sem gerðar höfðu verið til míns leiðsagnarkennara, auk þess sem mikil orka fór í að aðstoða nemana að laga sig að skólastarfinu hjá okkur, sem var ólíkt því sem þeir áttu að venjast – oft svo ólíkt að þeir áttu í vandræðum með að uppfylla kröfur kennara sinna um vettvangsnámið. Með árunum urðu vinnubrögð við skólann minn ögn markvissari við móttöku kennaranema en betur má ef duga skal. Þess vegna ákvað ég að skrá mig í námskeiðið um leiðsögn.

Hvað hef ég lært á námskeiðinu?

Að skoða sjálfan mig sem kennara (Sjá nánar hér)
Að skoða sjálfan mig sem leiðsagnarkennara (Sjá nánar hér)
Eitt og annað um hvað þarf til að gera góðan leiðsagnarkennara (Sjá nánar hér)
Að vettvangsnám á Íslandi gæti verið töluvert betra (Sjá nánar hér)
Að það er vísindalega sannað að maður geti lært af mistökum (Sjá nánar hér)
Að sjálfsmynd kennara og hvernig hún mótast er eitthvað sem ég vil skoða nánar (Sjá nánar hér og hér)
Að samvinna kennaranema skilar sér (Sjá nánar hér)
Að leiðsögn er sumstaðar ekki nægilega vel hugsuð (Sjá nánar hér)
Að hætta er á að nemar verði eftirlíkingar af leiðsagnarkennaranum (Sjá nánar hér)
Að hætta er á að nemar verði framlengingar af leiðsagnarkennaranum (Sjá nánar hér)
Að góður leiðsagnarkennari hefur áhrif á viðhorf nema (Sjá nánar hér)
Að nemar finna að aukin færni leiðsagnarkennara skilar sér í bættu námi (Sjá nánar hér)
Að færni í að veita tilfinningalegan stuðning er lykilatriði (Sjá nánar hér)


Fagmennska mín – skilgreining:

Þar sem ég er staddur í dag, við lok námskeiðsins, hefur mér tekist að skilgreina eftirtaldar skyldur sem ég tel mig bundinn:

Gagnvart sjálfum mér – að ég sé stöðugt að læra og bæta mig.
Gagnvart nemanda – að honum líði vel og fái námsumhverfi við hæfi.
Gagnvart foreldrum – að hagur barnsins sé í forgrunni.
Gagnvart teyminu – að óhætt sé að treysta mér fyrir mínum verkefnum, að ég taki þátt í faglegri umræðu og leggi mitt af mörkum til sameiginlegrar starfsþróunar teymisins.
Gagnvart stjórnendum – að ég geri það sem mér er sagt, að ég leggi mig allan fram, að ég leggi mitt af mörkum til að skapa jákvæðan starfsanda, að ég taki þátt í að móta stefnu skólans og viðhalda henni.
Gagnvart kennaranema – að ég stuðli að ígrundun og aktívu námi, að ég sé sálfélagslegur stuðningur, að ég veiti ráðgjöf og endurgjöf á uppbyggilegan hátt.
Gagnvart undirmönnum – að ég gæti sanngirni, dreifi björgum og byrðum jafnt, að ég sýni trúnað og traust, að ég leggi mitt af mörkum til að skipulag skólastarfsins sé í samræmi við sýn og stefnu skólans.

Nokkurn veginn á þessum stað er því starfskenning mín í dag. Vonandi verður hún ekki lengi á sama stað.

No comments:

Post a Comment