Saturday, September 22, 2012

Fyrirlestur Örnu

Það vakti mig fljótlega til umhugsunar að fagleg sjálfsmynd leikskólakennara skuli mótast í svo ríkum mæli af viðhorfum utanaðkomandi. Það eru engar stórfréttir að samfélagið sem við höfum búið til er ekkert að missa sig í virðingu fyrir starfi leikskólakennara. Þeim er borgað eilítið meira en blaðberum og þumalputtareglan í geiranum virðist vera sú að það dugi að hafa einn faglærðan starfsmann á deild, svo nægi að aðrir starfsmenn uppfylli þá grundvallarkröfu að vera ekki illa við börn.

Ég hef svo sem rekist á svipuð viðhorf, þó ekki jafnsvæsin, í garð grunnskólakennara.

En að stéttin skuli leyfa þessum viðhorfum að hafa jafn sterk áhrif á mig, það hafði mér ekki dottið í hug.

Það var líka afar áhugavert að sjá hvernig viðhorfin spanna mjög skýrt markað litróf. Leikskólakennarar sjálfir hafa þær hugmyndir um starf sitt að þeir þjóni tilgangi í lífi barnanna sem þeim er treyst fyrir. Þetta viðhorf endurspeglast ekki að öllu leyti hjá foreldrum og um leið og spurðir eru aðilar sem ekki tengjast börnunum sjálfum, eins og stjórnmálamenn, þá kemur þveröfugt viðhorf upp á borðið og litið er á leikskólakennara fyrst og fremst sem áhrifaaðila í lífi foreldra barnanna sem þeim er treyst fyrir, m.ö.o. gera leikskólakennarar foreldrum fyrst og fremst kleift að sinna vinnu í stað barnauppeldis.

Þetta er ljót sýn á leikskólann. Hún á einnig við um grunnskólann upp að vissu marki, sem sést til dæmis á því að skólaárið tekur ekki lengur mið af bústörfum. Þessi vídd á hlutverk skóla er auðvitað til og við eigum að viðurkenna hana. En það er greinilega nauðsynlegt að yngja upp í stétt stjórnmálamanna og fá þangað fleira barnafólk.

Sú gagnsemi sem mér sýnist í fljótu bragði að ég geti haft af rannsókn Örnu og fyrirlestrinum er sú að ég hef öðlast skýrari sýn á það hvernig viðhorf aðila utan skóla geta mótað viðhorf innan hans, svo og áherslur í starfinu sem þar fer fram. Það mun gagnast mér að hafa þessa vídd í huga þegar ég tek ýmsar ákvarðanir í starfi í framtíðinni.

River of Life

Hér fyrir ofan er starfsferill minn sem kennari túlkaður með teikningu af bugðóttri á.

Upptökin eru vorið 2004, en þá stóð ég fyrir tilviljun uppi atvinnulaus og bauðst að hlaupa í skarðið í skóla á höfuðborgarsvæðinu þar sem kennarar á unglingastigi höfðu flosnað upp og ekkert gekk að ráða í störfin svo seint á skólaárinu. Áin tekur þar krappa beygju frá sínum fyrri ferli og rennur svo í nokkuð beina átt, fyrst aftur í átt að hinum upprunalega ferli en heldur svo áfram framhjá honum, því ég fjarlægðist fljótlega þá hugsun að kennslan væri tímabundin skyndilausn á mínum málum. Það var nefnilega kærkomin og þægileg tilbreyting að fá útborgað mánaðarlega, eftir margra ára hark í leikhúsbransanum. Næsta krappa beygja kemur svo þegar mér er boðið áframhaldandi starf og það verður opinbert að ég muni ílendast eitthvað á þessum nýja vettvangi.

Áin er svo nokkuð "smooth" nema hvað það kemur verkfall, sem mér fannst afar þægilegur tími. Svo vorið 2006 tek ég þá ákvörðun að fara í kennsluréttindanám. Hér er þá orðið ljóst að ég sé þetta fyrir mér sem framtíðarstarf.

Að loknu námi er ég ráðinn til starfa í nýjum grunnskóla og fyrsta árið þar er stormasamt, krefjandi, viðburðaríkt og mjög skemmtilegt. Hver óvænta uppákoman rekur aðra og áin veit ekkert hvert hún ætlar að renna. Svo allt í einu breytast aðstæður heima fyrir og ég átta mánaða frí þegar dóttir mín kemur í heiminn. Að þeim mánuðum loknum kem ég aftur til starfa og áfram heldur áin að kippast til í allar áttir en nú hef ég aðeins meiri reynslu svo bugðurnar eru ekki jafn krappar eða djúpar. Svo þegar þriðja starfsárið hefst hjá mér gerbreytist allt. Nú er ég orðinn öruggur í starfi, með frábært teymi í kringum mig og vinna áranna á undan er farin að bera ávöxt. Áin rennur því nánast beint af augum þegar fyrirbærið "Úllónolló" verður til.

Undir lok þriðja starfsársins, vorið 2010, býðst mér að ganga til liðs við stjórnunarteymi skólans og áin tekur nýja stefnu meðan ég læri að samræma kröfur nýja starfsins við kennsluna og samstarf við kennarateymið mitt. Að ári liðnu er mér tjáð að ég fái ekki áframhaldandi ráðningu í þeirri stöðu og áin ætlar því að fara aftur í beina farveginn. Skömmu síðar skipta stjórnendur um skoðun og mér er veitt enn meiri ábyrgð. Kennslan fer fljótlega að sitja á hakanum og áin færist fjær og fjær miðjunni.

Á vorönn 2012 verður svo síðasti mikli viðsnúningurinn þegar ég tel að ég stefni í þá átt að hætta að kenna og snúa mér alfarið að stjórnun, en skólinn er á öðru máli. Tek ég þá ákvörðun um að hætta störfum við skólann í bili og innrita mig í framhaldsnám. Hvert áin stefnir í framhaldi af því verður að koma í ljós.