Wednesday, September 19, 2012

Skrifaðu þrjú atriði sem skipta þig höfuðmáli í starfi

Þessu var dúndrað á okkur í byrjun síðari dags fyrstu staðlotu. Það var mikið kvartað og kveinað um erfiði þess að velja þrjú atriði. Ég notaði einfalda aðferð. Ég skrifaði bara fyrstu þrjú sem komu upp í hugann. Hugsanlega hefði ég getað látið mér detta í hug atriði sem skipta mig meira máli en þessi þrjú, hefði ég gefið mér meiri tíma. En kannski einmitt ekki. Kannski komu þessi þrjú upp fyrst af því að þau eru mikilvægust.

1. Viðurkenning - mér finnst ekkert gaman að gera neitt nema ég fái að heyra að ég sé góður í því.
2. Virðing - ég hef lært smám saman að leiðin að því að manni sé sýnd virðing er að sýna hana fyrst.
3. Gleði - hornsteinninn í stefnu skólans þar sem ég hef starfað undanfarin fimm ár og vanmetið fyrirbæri í skólastarfi heimsins að mínu mati.

Hvers vegna valdi ég þetta námskeið og hverjar eru væntingar mínar?


Hreinskilnislega svarið er að í raun voru ekki önnur valnámskeið í boði á haustönn fyrir mann eins og mig. Námskeiðið var valið með stuttum fyrirvara eftir spjall við galdrakonuna Ásdísi Hrefnu (sem vildi reyndar helst setja mig í annað námskeið) og það var ekki fyrr en eftir að hafa valið námskeiðið sem ég fór að skoða út á hvað það gengur.

Þá kom á daginn að mér veitir bara ekkert af því sem hér er að finna! Ég stundaði dálítið sem kallast “apprenticeship of observation” í vettvangsnámi mínu 2006-7 og var þá svo heppinn að fá gríðarlega skipulagðan, faglega flottan og krefjandi leiðsagnarkennara. Mín eina (og stutta) reynsla af því að þiggja leiðsögn er því mjög jákvæð.

Hins vegar komst ég svo í þá stöðu í starfi að vera fljótlega treyst fyrir kennaranemum, án þess að hafa til þess tilskilda reynslu, né nokkra kunnáttu né þjálfun í því sem mér bar að veita nemum. Learn by doing var því það eina sem mér bauðst.

Í viðtali við mastersnema í vor komst ég að þeirri niðurstöðu að þetta væri óviðunandi og um leið fór ég að hugleiða hvort skólinn þar sem ég er nú í stjórnunarstöðu þurfi ekki að móta sér skýrari stefnu um það með hvaða hætti er tekið á móti kennaranemum. Ég vonast til þess að geta nýtt mér námskeiðið til að hrinda því í framkvæmd.