Wednesday, December 12, 2012

Úrvalsverkefni


Úrvalsverkefnið varð fyrir valinu vegna þess að það kom mér á óvart hve mikið ég lærði af því. Þegar litið er yfir farinn veg voru mörg skemmtileg verkefni, til dæmis var bæði gaman og krefjandi að kryfja eigin mistök í verkefninu um óvænt atvik og að sama skapi fékk ég dýrmæta innsýn í starf leiðsagnarkennarans í viðtalinu við Kristen. En myndbandsupptaka af sjálfum mér að spjalla við gamlan vin og kollega situr í mér. Því vel ég verkefni 4 – upptaka af samræðum.

Það sem kom mér á óvart þegar ég sat með þremur samnemendum og horfði á upptökuna var hversu sterk líkamleg áhrif upptakan hafði á mig. Ég krosslagði hendur, færði mig fjær félögunum og stífnaði allur upp í skrokknum.

Ástæðan var sú að allt í einu var kominn glænýr fókus í verkefnið og ég var ekki undir hann búinn. Skrýtið, því ég er sviðsvanur og hef ekki hingað til átt í vandræðum með eigin frammistöðu fyrir framan fólk. En fram að þessu hafði ég haldið að markmiðið með verkefninu væri að ég gæti haft eitthvað vitrænt að segja um kennslustundina sem ég hafði verið að horfa á.

Það rann skyndilega upp fyrir mér ljós. Verkefnið snerist um hvernig mér gengi að ræða við manninn, hvort ég hitti á rétta tóninn og væri bæði uppbyggilegur og krítískur í senn. Tækist mér að leiða samræðurnar svo þær snerust um siðferðileg rök en ekki bara athafnir, án þess þó að stjórna um of og taka völdin af viðmælandanum?

Þetta var eins og pínulítið starfendarannsókn. Mikið var þetta erfitt, gagnlegt og gaman.

Fyrri færslur um þetta verkefni eru hérna og hérna.