Wednesday, September 26, 2012

Starfskenning mín (2007)

1. Inngangur
Nám mitt í vetur hefur verið bæði skemmtilegt og gagnlegt. Mér hafa opnast dyr að mörgum vistarverum sem ég vissi ékki áður að væru til. Ég líkti leiðbeinandanum Birni Gunnlaugssyni nýlega við forföður okkar hann Homo Habilis, sem tókst að nýta sér gripþumalinn til að búa til fyrstu verkfæri mannkynssögunnar. Frumstæð voru þau en honum tókst að nýta það sem hann fann í nágrenni sínu og tók þannig stórt skref fram á við í þróuninni. Kennarinn Björn Gunnlaugsson á hins vegar vel útbúinn verkfærakassa og er vel í stakk búinn til að undirbúa, framkvæma, meta, stjórna, hvetja og leiðbeina. Að einu leyti hefur þó námið í vetur ekki verið mér að skapi. Það er bjargföst trú mín að hér sé verið að þjálfa kennara, en ekki kennslufræðinga. Mér finnst hreinlega að það sé margfalt mikilvægara að ég geti sagt hér frá því hvaða augum ég lít framtíð mína í kennslunni, en að ég vísi í það sem aðrir hafa sagt. Því lýsi ég því hér með yfir að það sem hér á eftir fer er alfarið mitt verk, skrifað frá mínu hjarta, túlkað með mínum huga. Ég ætla hér að segja frá því hvaða augum ég lít kennslu sem slíka og mig sjálfan sem kennara.
2. Starfskenning mín
Sýn mín á hlutverk kennarans hefur tekið miklum breytingum í vetur. Ég geri mér grein fyrir því núna að ég var á árum mínum sem leiðbeinandi ábyrgur fyrir ákveðnu afturhvarfi til gamaldags kennsluhátta. Ég kunni einfaldlega ekki annað. Nú sé ég fram á að ég verði allt öðruvísi kennari en ég var leiðbeinandi, ekki síst vegna þess hver stefna þess skóla er sem hefur ráðið mig til starfa. Færibandavinnan er fyrir bí og í staðinn sé ég sjálfan mig fyrir mér sem maurabónda, sem fylgist stoltur með iðnum maurum sínum æða hingað og þangað um maurabúið. Ég mun aðstoða nemendur mína við að skipuleggja nám sitt frekar en að eyða kvöldi eftir kvöld í að skipuleggja kennsluna. Ekki þar með sagt að ég verði óskipulagður kennari - þvert á móti - ég ætla bara að láta aðalhlutverkið og kastljósið af hendi til nemendanna.
Þótt ég hafi tekið þá stefnu í vetur að mennta mig sem tungumálakennari er alls ekkert víst að erlend tungumál verði það eina sem ég kenni. Ég hef mikinn áhuga á að samþætta enskuna við aðrar námsgreinar og sé ótæmandi möguleika á því sviði. Ég er líka viss um að það er miklu skemmtilegra - og gagnlegra - fyrir tilvonandi nemendur mína að læra um lönd heimsins, pláneturnar eða ljóstillífun á ensku og tileikna sér þannig málið heldur en að stagla yfir muninum á past, present og present continuous. Allt sem við lærum, lærum við í gegnum tungumál, hvort sem það er íslenska, enska eða eitthvað annað. Tungumálin móta þann heim sem við lifum í og allan okkar veruleika. Hver nemandi á sér sinn veruleika sem hann upplifir í gegnum sitt tungumál.
Það er þó augljóst að mínu mati að þjóðfélagsþegnar tuttugustu og fyrstu aldarinnar munu nota ensku í meira mæli en við sem eldri erum. Heimurinn er að minnka, landamæri að hverfa og enskan er að verða alþjóðamál sem allar þjóðir heims nota í samskiptum sín á milli. Þeirri þróun held ég ekki að verði snúið við, heldur mun hún herða á sér ef eitthvað er. Íslensk börn eru mörg nánast tvítyngd löngu fyrir fermingu, sem gerir starf enskukennarans bæði auðveldara og erfiðara í senn - auðveldara vegna þess að börnin hafa bæði getuna og viljann til að læra ensku, en erfiðara vegna þess að mörgum finnst þau snemma vera búin að læra ensku þegar svo er alls ekki.
Umfram allt vil ég verða kennari sem nemendum líður vel hjá. Skólastjóri sem ég starfaði einu sinni fyrir lét þau orð falla þegar hann réð mig til starfa að hans stefna væri sú að nemendum ætti að líða vel, því ef nemendum liði vel þá færi nám fram. Þrátt fyrir að sennilega hafi ekki heppnast að framfylgja þessari stefnu við þennan skóla tel ég að tilfinningin á bak við stefnuna sé hin eina rétta. Allt of mörgum nemendum líður illa. Kennari getur séð til þess að nemendum líði vel og stundi nám sitt markvisst með því einu að gefa þeim eitthvað að fást við sem skiptir þá máli og hefur einhverja merkingu fyrir þeim. Í tengslum við það sem ég nefndi áðan um samþættingu námsgreina sé ég fyrir mér að nemendur mínir fáist við alls konar lausnaleit og task-based verkefni um hluti sem snerta þá og líf þeirra. Þess háttar hluti  prófaði ég mig áfram með sem leiðbeinandi en skorti þekkingu til að gera það á markvissan hátt. Nú verður öldin önnur. Til dæmis hef ég hlotið mikla og góða þjálfun í námskeiðinu um fjölmenningarlega kennslu og fyrirlestur sem Þórunn Óskarsdóttir hélt fyrir okkur í Ármúlanum á líka eftir að gagnast. Þegar upp er staðið nú í vor er það án alls vafa þetta atriði sem gnæfir yfir öll önnur sem ég hef lært í vetur: nemendur þurfa verkefni sem hafa einhverja merkingu fyrir þeim.
Sjálfstæði nemenda var ekki fyrirbrigði sem vakti mikið traust hjá mér þegar ég starfaði sem leiðbeinandi. Ástæðan var að mínu mati margþætt. Skólabragurinn bauð ekki upp á að nemendur sýndu mikla áhugahvöt. Kennarar voru óreyndir þegar kom að því að veita nemendum þetta sjálfstæði. Fleira mætti nefna. En nú hef ég áttað mig á því að í þessa átt stefnir skólinn og það sem sárast vantaði - utanumhald - er fyrir hendi í Evrópsku tungumálamöppunni. Þannig að þetta óttast ég ekki lengur.
Fjölbreytni í kennsluháttum var ansi langt frá því að vera mín sterkasta hlið sem leiðbeinandi. Ég kenndi að mestu eins og mér var kennt í gamla daga og jafnvel á enn einhæfari hátt á köflum. Nú hef ég öðlast þekkingu og reynslu í verkefnagerð, notkun tölvutækni, notkun bókmennta og kvikmynda og svo framvegis. Tímarnir hjá mér verða ekki eins leiðinlegir, hvorki fyrir mig né nemendur, og þeir voru þegar ég var leiðbeinandi.
3. Á leið út í starfið
Í vetur hef ég þjálfast töluvert í gerð kennsluáætlana, sem ég hafði einfaldlega ekki prófað sem leiðbeinandi. Að vísu hafði ég uppfyllt þær kröfur vinnuveitanda míns að búa til kennsluáætlun fyrir hverja önn í Mentor og vista hana þar sem nemendur og foreldrar höfðu aðgang að henni en þar sem engum datt í hug að fylgjast með þessum áætlunum skipti það engu máli hvort ég fór eftir þeim í raun. Nú hef ég komist að raun um að góð kennsluáætlun geriri kennslustundina miklu markvissari og tel mig vera orðinn nokkuð færan í áætlanagerð. Mér hefur gengið vel að láta áætlanir kallast á við kröfur áfangalýsingar eða námskrár og ég tel að þær hafi verið hvetjandi og örgrandi fyrir nemendur mína. Hins vegar get ég örugglega bætt mig hvað varðar hvatningu til nemenda að ígrunda eigið nám. Ég get gert fjölbreyttar kennsluáætlanir sem leggja áherslu á mismunandi færni, hef reynslu í að kenna þvert á námsgreinar og þykist því geta tekist á við það í áætlanagerð, og ekki síst hef ég þjálfast töluvert í því að áætla tíma fyrir tiltekin verkefni á námsáætlun. Það hefur ekki alltaf gengið upp hjá mér í æfingakennslunni en það hefur verið góður skóli út af fyrir sig. Ég gæti þó sennilega bætt mig í að leyfa nemendum að taka þátt í áætlanagerðinni. Svo er ég ekki viss um hvernig mér á eftir að ganga að nota markmálið í kennslustundum. Þegar ég var leiðbeinandi notaði ég íslensku allt of mikið og nemendur mínir í æfingakennslu áttu það til að notast við hana. Nú er ég að fara að kenna á grunnskólastigi aftur, vitandi að tjáskipti á markmálinu eiga að vera kjarninn í kennslu minni. Vonum að það gangi vel.
Mikilvægi þess að byrja og enda kennslustundir á markvissan hátt var mér algerlega hulið þegar ég var leiðbeinandi, enda voru mínar kennslustundir afar ómarkvissar í flestum tilvikum. Nú hef ég þjálfast í að nota kveikjur, að halda mig við áætlun án þess þó að fórna sveigjanleikanum er breytinga er þörf, en þarf að bæta mig í að skipta milli verkefna á þægilegan hátt og láta kennslustundina ekki fjara út, sem hefur nokkrum sinnum komið fyrir mig í æfingakennslunni. Innihald kennslustunda minna get ég bæið tengt við atburði líðandi stundar og enskumælandi menningu því hvort tveggja þekki ég mjög vel. Ég þekki hins vegar nemendur mína ekki enn og mun því þurfa að notast við ýmsa tækni sem ég hef lært í námskeiðinu fjölmenningarleg kennsla til að bæta úr því. Þá er ég viss um að ég mun eyða hluta sumarsins í að rifja upp það sem við lærðum í haust um námsaðferðir og námsstíla því ég er farinn að ryðga nokkuð í þeim fræðum. Sem leiðbeinandi átti ég oft í erfiðleikum með að halda athygli nemenda minna en ég sé nú ekki fram á að stór hluti minnar kennslu muni felast í að standa fyrir framan hóp og halda athygli þeirra, það kemur ekki heim og saman við sýn mína á nemendasjálfstæði. Bekkjarstjórnun hefur þó farist mér vel í æfingakennslunni og ég veit að ég mun búa að því þegar á reynir.
Hvorki árin mín sem leiðbeinandi né æfingakennslan hafa veitt mér nægilega þjálfun í að höfða til sjálfstæðis nemenda. Skólinn þar sem ég mun starfa leggur ríka áherslu á þetta og ég vonast til þess að ég fái þar góðan stuðning meðan ég er að fóta mig. Afstaða mín til heimavinnu hefur lengi verið sú að nám eigi helst að fara fram í skólanum. Þó eru ýmis verkefni sem krefjast þess að eitthvað sé unnið heima og ég tel mig geta borið kennsl á þá hluti. Ég er ekki þeirrar skoðunar að kennari eigi að setja fyrir heimavinnu í hverri viku til þess eins að nemendur geri eitthvað heima hjá sér en margir foreldrar hafa verið mér ósammála um þetta. Þemanám kemur til með að skipa stóran sess í minni kennslu, eins og reyndar kom stundum fyrir þegar ég var leiðbeinandi, og ég sé fram á árangursríkt samstarf við samkennara mína. Nú hef ég líka öðlast þekkingu og þjálfun í skipulagningu þemanáms svo sá þáttur verður eflaust mun markvissari hjá mér en áður. Ferilmöppum hef ég hins vegar aðeins kynnst frá hlið nemandans og geri mér grein fyrir að slík vinna er ný fyrir mér. Með góðum stuðningi samstarfsfólks og Evrópsku tungumálamöppunnar vona ég þó að það muni ganga vel. Kennslan við skólann þar sem ég mun starfa er orðin nokkuð tölvuvædd og ég mun njóta góðs af því sem ég hef lært á námskeiðinu um notkun upplýsingatækni í skólastarfi. Auk þess eru nemendur í dag langflestir á heimavelli þegar tölvur eru annars vegar. Utanskólaverkefni voru snar þáttur í starfi mínu sem leiðbeinandi, bæði var ég að vinna í leiklist og einnig félagsmálum. Sennilega er það veikleiki hjá mér að tengja slík verkefni inn í námskrá og meta nám nemenda af þeim en ég er þeirrar skoðunar að af utanskólaverkefnum læri nemendur ýmislegt sem ekki er hægt að setja í námskrá og skólinn er sjaldan fær um að kenna með jafn óbeinum en um leið markvissum hætti. Þá á ég við samvinnu, samkennd, samábyrgð og þar fram eftir götunum.
Skólinn þar sem ég mun starfa hefur tekið að sér það verkefni í samvinnu við annan nálægan grunnskóla að vinna að þróun í námsmatsmálum. Ég hlakka mikið til að takast á við það verkefni því ég hef mjög sterkar og mjög neikvæðar skoðanir á námsmati eins og það er í dag. Ég lét þau orð falla einhversstaðar í vetur í umræðu um próf að flestir innan skólakerfisins væru farnir að efast um gildi prófa og að þeir sem ekki efuðust væru þeir sem hefðu sannfærst um að próf væru vond. Ég er í þeim hópi. Í vetur hef ég þjálfast í leiðbeinandi mati, sem ég tel að sé framtíðin og mun beita því í ríkum mæli. Ég hef mikla trú á getu minni til að búa til matsverkefni við hæfi og meta þau í samráði við nemendur. Jafningjamat og sjálfsmat munu einnig skipa stóran sess hjá mér þótt mig skorti reynslu í framkvæmd þess. Ég hef kynnt mér Evrópsku tungumálamöppuna og mun styðjast við hana auk þess sem ég hef reynslu af skráningu námsmats í Mentor og hefur farnast það vel. Ég veit að ég er mun sterkari í að meta ritunar- og lestrarfærni nemenda og geri mér grein fyrir að ég þarf að bæta mig á sviði hlustunar- og talfærni, eða öllu heldur mats á þeim þáttum. Þá hef ég öðlast aukinn skilning á mikilvægi þess hvernig við leiðréttum villur og mun gæta þess að hafa aðgát í nærveru sálar.
Þegar á heildina er litið er ég nokkuð öruggur með sjálfan mig sem verðandi kennari, því ég tel að ég viti hverjir styrkleikar mínir eru og horfist í augu við veikleikana og er tilbúinn að leggja á mig vinnu til þess að sigrast á þeim.
4. Framtíðin
Þegar ég fór í atvinnuviðtal til skólastjórans sem hefur ráðið mig til vinnu spurði ég í lok viðtalsins hverjir væru stærstu gallarnir á því að starfa við þennan tiltekna skóla, hvað væri verst, hvað væri erfiðast. Mér til mikillar ánægju komst ég að því að allt sem skólastjórinn nefndi fékk mig til þess að hugsa með sjálfum mér: "Það verður nú gaman að takast á við þetta!" Með þessu hugarfari legg ég út í kennarastarfið. Ég sé ekki hindranir heldur áskoranir. Ég sé ekki ágreining, heldur skoðanaskipti. Ég sé ekki vandamál, ég sé tækifæri. Á hverjum degi get ég öðlast reynslu sem hjálpar mér daginn eftir og þannig vex ég stöðugt í starfi. Þegar ég kemst að því að ég er ekki nógu fær á einhverju sviði, þá reyni ég að mennta mig til þess að bæta úr því. Samvinnumenningin sem ég hef séð að ríkir innan þessa skóla mun verða til þess að ég læri af samstarfsfólki mínu og það af mér. Ég held því ósmeykur út á vinnumarkaðinn. Framtíðin er björt!
5. Lokaorð
Starfskenning mín er ekki fullmótuð og á ekki heldur að vera það. Góður kennari er sífellt að læra, leita að tækifærum til að bæta sig og finna innblástur í samstarfi við nemendur jafnt sem aðra kennara. Mín bíða spennandi verkefni sem ég hlakka til að takast á við og hræðist ekki. Sem kennari ætla ég mér að vera skemmtilegur, faglegur, duglegur, drífandi, hress og kátur. Ég ætla að leyfa öðrum að njóta góðs af styrkleikum mínum og reyna að læra af öðrum á þeim sviðum þar sem ég þarf að bæta mig. Ég er metnaðarfullur og ætla mér ekki bara að verða góður kennari, heldur frábær.