Friday, November 23, 2012

Lestur fræðigreina með púslaðferð

Af ásettu ráði beið ég með að koma frá mér texta um þetta verkefni. Ástæðan er sú að ég vildi sjá hvað sæti eftir af því sem ég lærði af félögum mínum um greinar sem þær lásu. Því miður er það ekki margt.

Sjálfur varð ég nokkuð upprifinn yfir greininni eftir Beauchamp og Thomas, sem ég var látinn lesa. Ég hafði einmitt verið í hugleiðingum í ætt við það sem kemur fram í greininni þegar ég var að vinna að verkefni um "örlagaríkt atvik" fyrr á önninni, það er að segja um mótun persónuleika kennarans við upphaf kennsluferilsins. Grein Beauchamp og Thomas er afar ítarleg og gerir nokkuð sem ég hef saknað úr lesefni þessa námskeiðs og annarra nú í haust - fer út fyrir þröngan sjóndeildarhring kennslufræðinnar, ef svo má kalla það. Farið er yfir efnið frá heimspekilegum, félagsfræðilegum og sálfræðilegum sjónarhornum, sem mér fannst afar hressandi. Svo fannst mér að það hefði nú verið gaman að hafa þessa grein til hliðsjónar þarna í september, en reyndar held ég eftir á að hyggja að hitt hafi verið betra, sem sagt að glíma við viðfangsefnið út frá minni eigin takmörkuðu þekkingu og fá svo þennan fróðleik beint í æð nú undir lok námskeiðsins.

Við sem sátum saman og ræddum þessa grein vorum sammála um helstu þætti en höfðum jafnframt hvert sína sýn svo sú umræða var mjög gefandi og dýpkaði skilning minn.

Um hinar greinarnar hef ég minna að segja. Félagar mínir í hópnum voru ekki eins óðamála og æstir og ég þegar við deildum þekkingu okkar, sem hefur kannski haft áhrif. Menn eru að auki misgóðir í að tjá sig og koma hugsun sinni til skila. Það kom fyrir að ég átti í erfiðleikum með að gera mér grein fyrir efni hinna greinanna. Af síðari hluta verkefnisins situr því afar lítið eftir hjá mér, því miður.

Á þessu er þó ein undantekning. Í einni grein er vísað í Moir (1999) og hina gullfallegu tímalínu yfir örvinglan nýliða í kennslu. Sú tilvísun kveikti í einum hópfélaga mínum og í hópnum spunnust umræður um hvers vegna í ósköpunum nýútskrifaðir kennarar fái ekki útprentaða tímalínu í hendurnar geðheilsu sinni til varnar.

Það háir kannski verkefninu að greinarnar höfða mismikið til okkar sem sitjum námskeiðið. Ef til vill hefði verið betra að leyfa okkur að velja greinarnar sjálf út frá áhugasviði hvers og eins, hver veit?

No comments:

Post a Comment