Tuesday, October 2, 2012

Starfskenning mín afbyggð 2012

Fyrstu viðbrögð við lestri textans eru þau að þarna fer ungur montrass sem er mjög upptekinn af því að hafa fengið eftirsóknarverða vinnu og nennir ekki að vinna akademískt.

Hér verður stiklað á helstu punktum í gegnum baksýnisspegilinn og reynt að kryfja þá að einhverju leyti.

Maurabóndi?
Þetta er ansi óheppileg líking þó hún sé vel meint. Eitt af því sem ég hef glímt við í starfi mínu í unglingadeild er einmitt það að nemendurnir sem koma upp úr sjöunda bekk ár hvert eru margir hverjir lúsiðnir en kunna flestir ekki vitund að læra. Myndin af kennaranum sem ætlar að gefa aðalhlutverkið eftir til nemendanna er ágæt og að miklu leyti í takt við það hvernig ég hef þróast sem kennari.

Samþætting
Það hefur komið upp úr dúrnum að ég hef gert margt annað en að kenna ensku og var meira að segja hættur öllum afskiptum af ensku síðasta kennsluveturinn. Ég kenndi dönsku um skeið, fullt af leiklist, mikla samfélagsfræði og varði að auki stórum hluta vinnutímans í einmitt það sem maurabóndinn ætlaði að gera, sem er að aðstoða nemendur við að skipuleggja nám sitt og læra að ná á því tökum.
Samþætt verkefni hafa verið margvísleg og ég hef orðið mjög fær í útfærslu þeirra. Hæst ber líklega fyrirbæri sem kallast Norðlingaleikarnir og ég mun ekki eyða plássi í að útskýra nánar hér.

Að nemendum líði vel
Þetta hefur tekist, þrátt fyrir ýmsar uppákomur. Mér hefur gengið afar vel að vinna að aukinni vellíðan nemenda minna og er mjög sáttur við þann hluta starfs míns.

Sjálfstæði nemenda
Þarna held ég að minn skóli og nánar tiltekið mín deild innan þess skóla, sé framar en margir aðrir hér á landi. Það hefur ekki gengið þrautalaust og ég var ekkert sérlega flinkur í þessu til að byrja með. Einstaklingsvikuáætlanir voru á dagskrá skólans frá upphafi en til að byrja með snerist mín einstaklingsmiðun aðallega um það hvort nemandi vildi gera tvær eða þrjár blaðsíður í enskuvinnubókinni. Okkur tókst hins vegar að taka framförum ár frá ári, lærðum að best væri að áforma með sínum umsjónarnemendum í öllum námsgreinum frekar en að áforma sína kennslugrein með öllum, fengum á hverju hausti nýjan árgang sem var sjóaðri í þessum vinnubrögðum og getum núna sagt með sanni að okkur hefur tekist að ala upp sjálfstæða námsmenn.

Evrópska tungumálamappan
Hana hef ég ekki notað í kennslu ennþá. Mig minnir að kennarinn minn í námskeiðinu þar sem þessi starfskenning var verkefni hafi verið ötull talsmaður möppunnar hér á landi. Ég er því ekki saklaus af því að vera kennarasleikja.

Notkun tölvutækni
Hér er annað svið þar sem mér og samstarfsfólki mínu hefur tekist að ryðja brautir. Ég smíðaði frábæran enskuvef fyrir nemendur mína, hef notast við alls konar rafræn hjálpartæki við úrvinnslu á verkum nemenda og hafði forgöngu um þróunarverkefni með spjaldtölvur sem hefur gengið afar vel.

Kennsluáætlanagerð
Síðan ég hóf störf sem kennari hef ég nánast aldrei skrifað kennsluáætlun um eina einustu kennslustund. Það eru örfáar undantekningar, svo sem þegar teymi kennara hefur unnið saman að stóru samþættu verkefni. Hluti þess að láta nemendum eftir aðalhlutverkið er hins vegar að kennarinn hættir að stýra því hvað gerist í kennslustund frá mínútu til mínútu. Þar með fara fyrir lítið plön mín um að verða flinkari í að byrja og enda kennslustundir, hvað þá að skipta á milli verkefna.

Að nota markmálið
Í fyrstu kennsluvikunni undirbjó ég enskukennslustund, fann verkefni, tók til gögn, labbaði inn í kennslustofu og byrjaði að tala á ensku. Nemendur flissuðu og báðu mig vinsamlegast að hætta þessu, það væri kjánalegt. Það liðu nokkur ár áður en ég reyndi aftur að tala ensku fyrir framan nemendur en í staðinn einbeitti ég mér að því að þróa alls konar umhverfi fyrir nemendur sjálfa að tala á ensku (og dönsku þegar það bar undir).

Námsmat
Sem betur fer fékk ég lausan tauminn í þessum málum en ekki að sama skapi að vera þátttakandi í því þróunarstarfi sem skólinn var skrifaður fyrir. Ég fékk því að prófa alls konar leiðir í námsmati - símat, prófamöppur, útipróf og þar fram eftir götunum, en fæst af því sem ég prófaði varð hluti af starfsháttum skólans þegar kom að námsmati. Því miður snerist sú þróunarvinna að mínu mati að miklu leyti um grafíska hönnun vitnisburðarblaða.
Við þetta má þó bæta að þegar ég var kominn í stjórnunarstöðu tókst mér að koma á samstarfi skólans míns við Námfús.is sem býður upp á margvíslegar framtíðarlausnir við námsmat. Það á hins vegar eftir að koma í ljós hvort skólinn ber gæfu til þess að nýta sér það að fullu.

Að eyða sumrinu í að rifja upp námsefni úr kennsluréttindanáminu
Já. Einmitt. Góður þessi.

No comments:

Post a Comment