Thursday, October 11, 2012

Fylgst með kennslu


Í dag fylgdist ég með kennslustund í ENS103 í framhaldsskóla hér í Reykjavík. Þetta var fjörugur tími og líflegur hópur. Verkefnið sem lagt var fyrir í tímanum tengdist smásögu sem hópurinn á að lesa fyrir næsta tíma og var því hugsað sem kveikja til að dýpka skilning nemenda á sögunni þegar að lestri kæmi. Kennarinn hafði fyrir tímann skipt nemendum í hópa á snjallan hátt – í tímanum á undan hafði hann gefið hverjum nemanda eitt orð sem kemur fyrir í sögunni og sagt þeim að muna orðið fram að næsta tíma. Fjórir nemendur voru um hvert orð og þannig voru hóparnir komnir. Mér láðist að spyrja kennarann hvort hann hefði raðað nemendunum af handahófi eða samkvæmt einhverju kerfi. Verkefnið var hlutverkaleikur þar sem hver og einn fékk lítinn miða með persónulýsingu og markmiði. Nemendur áttu svo að eiga skrifleg samskipti – senda hver öðrum skilaboð í þeim tilgangi að ná markmiðinu. Verkefnið heppnaðist vel eftir smávægilegt óöryggi í fyrstu – kennarinn hafði sagt mér fyrir tímann að verkefnið hefði hann ekki prófað áður og eftir á taldi hann að fyrirmælin í byrjun hefðu mátt vera ögn skýrari – án þess þó að hann vilji hafa þau of skýr og ítarleg því að hans mati verða pínulítið óskýr skilaboð til þess að samskipti milli nemenda aukast sem uppfyllir námsmarkmið bæði í ensku og samskiptafærni.

Byrjun kennslustundarinnar var mjög kaótísk. Nemendur sátu nokkuð þröngt í stofunni, öll borðin sneru að töflunni og voru ýmist eitt eða tvö borð saman. Mikið skvaldur var í stofunni fyrstu tíu mínúturnar eða svo meðan kennari heilsaði hópnum, kynnti áhorfandann (mig) og las upp. Merkilegt nokk þagnaði hópurinn svo nánast alveg um leið og nafnakalli lauk. Það vakti athygli mína að kennarinn gerði ekki tilraun til að fá nemendur til að hætta skvaldrinu. Ég velti því fyrir mér hvort hann væri búinn að gefast upp á slíku, hvort honum fyndist það kannski ekki mikilvægt meðan væri “bara” verið að lesa upp, en það sem kom á daginn var að milli hans og nemendanna ríkir þannig traust að þegar komið er að því að byrja að vinna eru langflestir nemendur tilbúnir í það.

Verkefnið gekk vel eins og áður sagði. Nær allir nemendur voru virkir og tóku þátt. Kennarinn gekk á milli hópanna og leiðbeindi eftir þörfum. Í byrjun myndaðist dálítill óróleiki þar sem margir nemendur báðu um aðstoð og kennarinn hafði ekki undan að sinna öllum í einu. Smám saman komust þó hóparnir af stað og leikar hófust.

Mér fannst athugavert að einn nemandi sem var að bíða eftir aðstoð tók upp símann á meðan hann beið, hringdi í vin sinn og arranseraði hádegismat (þetta var í síðasta tíma fyrir matarhlé) og fór svo til kennarans (á meðan aðrir biðu þolinmóðir) og sótti sér þá aðstoð sem hann þurfti til að geta komist í gang. Ég velti því fyrir mér í tengslum við þetta hvort gagnlegt væri fyrir þennan hóp að hafa einhvers konar kerfi á því hvernig nemendur leita eftir aðstoð, því ég tók eftir ansi mörgum sem réttu upp hönd og kölluðu kurteislega á kennarann án þess að það skilaði þeim miklum árangri.

Samskipti kennarans við hópinn fannst mér mjög skemmtileg. Greinilegt er að nemendur hafa álit á þessum kennara (hann er umsjónarkennarinn þeirra) og finnst hann skemmtilegur. Hann leyfði sér á stundum frekar óformlegt tal, skaut athugasemdum að nemendum sem sýndu óviðeigandi hegðun eða orðfæri, án þess að fara yfir strikið. Þó sýndist mér einn nemandi vera frekar óánægður í lokin þegar hópfélagar hans voru spurðir hvort hann hefði tekið þátt eða bara látið eins og geðsjúklingur. Einn nemandi gaf sig á tal við mig og í spjalli okkar trúði hann mér fyrir því að þarna væri góður kennari á ferð. Ég bað hann að skýra það nánar og hann sagði þá að hann væri “bara slakur, ekkert að böggast, hann kann á okkur, sko.”

Tíminn endaði svo á svipaðan hátt og hann byrjaði eða frekar kaótískt, þó þannig að kennari náði fram sínum markmiðum. Hann kallaði á alla hópana og bað þá að gera grein fyrir því helsta sem hefði komið fram í þeirra vinnu, setti svo fyrir heimaverkefnið að lesa söguna, en hafði áður hnykkt á því í samskiptum sínum við hópana, með athugasemdum eins og “That’s interesting, you’ll see when you read the book that you are close to something that actually happens in the story.”

Eftir tímann átti ég síðan spjall við kennarann um þessa kennslustund og verður úrvinnsla úr því spjalli birt hér innan tíðar.

No comments:

Post a Comment